Sigrún Birna Steinarsdóttir

Háskólanemi og formaður Ungra Vinstri grænna, býður sig fram í 2. – 3. sæti

Ég er tuttugu og tveggja ára landfræðinemi, landvörður og formaður UVG. Ég er Sunnlendingur í húð og hár, uppalin Hornfirðingur og á sterkar ættir að rekja undir Eyjafjöllin og á Síðuna í Vestur-Skaftafellssýslu. Að mínu mati eru mikilvægustu málefnin að koma ungu fólk að borðinu, atvinnumál og umhverfis- og náttúruverndarmál. Ég vil stuðla að sjálfbærni  í samfélaginu og aðgerðum í átt að hringrásarhagkerfi. Þá vil ég að náttúran okkar verði virt fyrir það sem hún er, sama hvort okkur þyki hún ljót eða falleg. Við eigum að bera virðingu fyrir náttúrunni og umhverfinu í kringum okkur og ég trúi því að sú virðing náist með því að kynnast náttúrunni og upplifa hana.

Málefni ungs fólks hafa lengi verið mér kær. Ég hef meðal annars setið í nemendaráði Framhaldsskólans í Austur-Skaftafellssýslu og var formaður Ungmennaráðs Hornafjarðar í tvö ár. Ungt fólk eru um 30% íbúa Suðurkjördæmis og við erum fullfær um að tala okkar máli sjálf og þurfum því við sæti við borðið!

Suðurkjördæmi er víðfeðmt kjördæmi og við þurfum að gera það eftirsóknarvert fyrir fólk, þá sérstaklega ungar barnafjölskyldur, að koma, aftur heim í sumum tilfellum, og byggja upp sitt líf. Það þarf að byggja upp fleiri leiguíbúðir í öllum byggðarkjörnum kjördæmisins, fjölga störfum án staðsetningar, efla fjarnám og tækifæri til að sækja nám í heimabyggð og tryggja leikskólapláss fyrir öll börn.

Ég hef haft áhuga á VG síðan ég man eftir mér, suðaði lengi um að fá að mæta á fundi og oftar en ekki látið í mér heyra. Þessi áhugi hefur svo sannarlega ekki dvínað og því býð ég krafta mína fram fyrir næstu Alþingiskosningar og gef kost á mér í 2.-3. sæti á listanum.

Samfélagsmiðlar:

Insta: @sigrunbirnaa
Tölvupóstur: sigrun@vinstri.is
Twitter: @siggabee

Aðrir frambjóðendur