Róbert Marshall

Leiðsögumaður, býður sig fram í fyrsta sæti

Ég er frá Vestmannaeyjum og það hefur, eins og algengt er, orðið stærri hluti af sjálfsmynd minni eftir því sem ég verð eldri. Ég verð fimmtugur í ár, er kvæntur Grundfirðingnum Brynhildi Ólafsdóttur og sameiginlega eigum við fimm börn sem eru á aldrinum 14 til 29. Við búum í Reykjavík en dveljum líka mikið í Vestmannaeyjum og Grundarfirði þar sem við eigum fjölskyldur. 

Við erum landsbyggðarfólk. 

Ég er fjallageit og rokkari. Ég hef starfað sem fjallaleiðsögumaður samhliða flestu því sem ég hef fengist við en meðal þess er blaða- og fréttamennska, sjómennska, netagerð, almannatengsl, dagskrárgerð og framleiðsla útvarps og sjónvarpsefnis.

Við hjónin rekum okkar eigin ferðaþjónustufyrirtæki á sviði leiðsagnar, þjálfunar og útivistarferðamennsku heima og erlendis. 

Ég starfaði um árabil sem fréttamaður á Stöð 2 og er fyrrverandi formaður Blaðamannafélags Íslands. Ég var á þingi frá 2009 til 2016 fyrir Samfylkinguna og Bjarta framtíð. Er uppalin pólitískt í Alþýðubandalaginu (var formaður ungs Alþýðubandalagsfólks) og hef kosið ýmist fyrrnefnda flokka og VG frá því þeir voru stofnaðir. Ég hef lengi verið pólitískt samferða VG enda mikill náttúru- og umhverfisverndarsinni og hef tengst flokknum frá því ég lýsti yfir stuðningi við hann í kosningunum fyrir fjórum árum. Undanfarið ár hef ég starfað sem upplýsingafulltrúi rikisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur. 

Þekking mín á Suðurkjördæmi og tenging við atvinnulífið er ástæða þess að ég býð mig fram til að leiða listann. Framundan er tími mikillar uppbyggingar og endurskipulagningar og hún þarf að að vera græn. 

Grænar áherslur í ferðaþjónustu, matvælaframleiðslu og samgöngum eru ekki bara það sem koma skal af nauðsyn heldur líka efnahagslega hagkvæmt og góð söluvara. Sjálfbærni er framtíðin. Allir stefna þangað. 

Ég brenn fyrir umhverfismálum, jafnrétti, félagslegu réttlæti, jöfnuði. 

Framganga okkar fólks, Mumma og Svandísar, í umhverfis og heilbrigðismálum og ekki síst forysta Katrínar Jakobsdóttur í ríkisstjórn hefur orðið mér hvatning til að láta ekki mitt eftir liggja og bjóða fram mína starfskrafta í komandi kosningum. Miðað við það góða mannval sem gefur kost á sér í forvalinu tel ég allar líkur á því að næstu kosningar marki kaflaskil í starfi okkar í Vinstrihreyfingunni – grænu framboði í Suðurkjördæmi. 

Aðrir frambjóðendur